Dvergurinn með eyrað fjallar um ætt kvenna og sérstaklega þá yngstu sem er titilpersóna sögunnar. Fyrst fylgjast lesendur með henni sem lítilli stúlku sem vex úr grasi og verður ung kona. Hún er með sífellt eyrnasuð og ankannaleg eyru, sem þó er aldrei farið í nákvæmar lýsingar á. Sagan tekur einnig á tabúi í íslensku samfélagi því mæðgurnar eru allar latar. „Þar er amma mín að veifa. Amma mín sagði alltaf að hún væri löt og hún ætti eftir að verða fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti. Þannig að amma var smá innblástur þar.“
„Mér fannst gott að skrifa einhverja sögu sem lét nánast ekkert uppi. Þetta er allt í höndum lesandans um hvað þetta raunverulega fjallar.“ Hún segir þó að óneitanlega sé sorglegur tónn í sögunni og ef til vill sé leti kvennanna harmræn. „Kannski er það eitthvað slæmt í þessari sögu. Það er allavega eitthvað að. Allar þessar konur eru á skjön. Þær finna sig ekki í tímanum.“
Börn líka með flókið tilfinningalíf
Það mætti segja að síðasta sagan í smásagnasafninu Herbergi í öðrum heimi sé titilsaga bókarinnar þó hún beri annað nafn því sagan vísar til nafns bókarinnar með afgerandi hætti. Sagan heitir Ég er ekki kona, ég er sjö ára og segir frá systrunum Rúnu og Bergljótu. Rúna er um það bil að verða kynþroska en Bergljót er sjö ára. Móðir þeirra hefur beðið þær að halda sig til hlés því hún er að halda kvennaboð og sú eldri reynir að passa þá yngri. „Barnungu karakterarnir eru með flókið tilfinningalíf líka,“ segir María.
Persónur Maríu eru gjarnan ungar konur eða jafnvel börn. Rúna í sögunni Ég er ekki kona, ég er sjö ára er á mörkum þess að vera barn og vera ung kona. „Hún Rúna, hana langar til að vera fullorðin, en þetta er samt tvíbent. Hún þolir ekki hvað systir hennar fær mikla athygli og hún er svolítið afbrýðisöm en hún vill líka vernda systur sína frá fullorðinsheiminum, sem hún er líka hrædd við.“
Einn góður lesandi ótrúlegur
Íslenska málsvæðið er nokkuð lítið og því segir María ómetanlegt að eiga góða þýðendur. „Það er skrítið að skrifa á íslensku, maður er að skrifa á leynitungumáli.“ Sögur hennar hafa verið þýddar á nokkur tungumál og hún hefur ferðast utan til að taka þátt í málþingum og fleiru. Nýlega var hún í Tékklandi og Slóvakíu að taka þátt í Authors Reading Month. „Það var ævintýralegt, ótrúlega mögnuð upplifun og eitthvað sem að ég hafði aldrei leitt hugann að.“
Eitt kvöldið á hátíðinni spurði kona hana hvort það freistaði Maríu ekki að skrifa einfaldlega á ensku. „Mér fannst það alveg fáránleg spurning. Bara, nei.“ Þó að hún eigi sér þann draum að bækur hennar nái til víðari hóps en þeirra sem kunna íslensku þá hugnast henni ekki að skrifa á öðru tungumáli en móðurmáli sínu. Fyrir vikið þurfum við að treysta á góða þýðendur. „Við eigum reyndar ótrúlega góða þýðendur.“
Lesendafjöldi Maríu veldur henni þó ekki þungum áhyggjum. „Áður en að ég byrjaði að skrifa þá var ég ekki að hugsa oh þetta er eitthvað þunglyndislegt að vera bara að skrifa fyrir 300 þúsund manns. Ég er enn þá á þeim stað að mér finnst magnað þegar að ein manneskja les og ég er ekki að vera með einhverja falska hógværð eða eitthvað svoleiðis. Ég er bara að meina það. Einn góður lesandi, það er ótrúlegt.“
María lagði stund á heimspeki í Háskóla Íslands og hefur ekki lært þar ritlist eins og margir höfundar af yngri kynslóðinni um þessar mundir. Hún segir dýrmætt að eiga vini sem sinna líka skrifum. „Það er gott að eiga gott tengslanet og sérstaklega að geta talað við fólk sem er að gera það sama og þú. Eignast góða yfirlesara. Ég held að tengslanet sé þó ekkert forsenda þess að verða góður rithöfundur.“
Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.







